Komnir heim, löngu komnir heim

Allir meðlimir tríósins eru komnir heim heilir á húfi, með alla fingur, tær og hjólbarða, þó lint sé í einum þeirra.

 Takk fyrir að fylgjast með góðu stundunum og þeim slæmu. Haukur hefur bætt við einhverjum myndum úr ferðalaginu á síðuna sína sem ég man ekki hver er. Ég hef sett inn nokkrar myndir á alnetið, í lélegri gæðum en fólk á að venjast reyndar, en myndir þó:

http://public.fotki.com/nonnidelnorte/afrka2007/

Einnig hef ég sett inn nokkur myndskeið á YouTube sem gætu glatt:

http://www.youtube.com/user/nonnidelnorte

 Góðar stundir. Kossar og knús.

Orblogg

Afrikout i Mekka

Ymislegt hefur gerst.

Tekkland, Bjorland, Tyskaland, Brynjar, Knutur, Svitjod, Hakan, Danmork, Bjork, Hafdis Sunna.

Haukur for heim med Hertogann i Norraenunni. Eg for til Englands.

Stoppadi einn dag i London.

Er nuna i landinu helga, Liverpool.

Otruleg stemming fyrir Liverpool – AC Milan i kvold. Eg er buinn ad kaupa buning og trefil og eg syng songva med braedrum minum raudu.

Sogurnar koma vonandi vid fyrsta taekifaeri.

p.s. Starfskraftar minir i sumar eru ennta til solu haestbjodanda. Tek tilbodum adeins i nokkra daga i vidbot.

Morðæði og Mezzoforte

                              

Leið okkar og rauða hertogans hefur legið víða í þessu tveggja vikna samskiptaleysi.

Serbía, Ungverjaland, Slóvakía og nú loksins hámenning í heimabæ Mozartkugeln og Mozart sjálfs, Vínarborg.

Eftir dúndur stuð í Belgrad komum við til Búdapest. Um kvöldið barst til eyrna okkar að hljómsveit nokkur, Mezzoforte að nafni, væri að fara halda tónleika á Danube-ánni í Búdapest og myndi djassa Ungverja að íslenskum sið þetta ljómandi fína mánudagskvöld. Við ætluðum ekki að láta okkur vanta enda Íslendingar ekki á hverju strái, hvað þá semi-heimsfrægir Íslendingar. 

Í miðasölunni er okkur hinsvegar tilkynnt að allir miðar séu uppseldir. Kokhraustir og áhyggjulausir bendum við manninum á þá staðreynd að við eiginlega þekkjum meðlimi hljómsveitarinnar, að minnsta kosti þekkjum við einhvern sem þekkir meðlimi hljómsveitarinnar eða þekkjum einhvern sem þekkir einhvern sem þekkir meðlimi hljómsveitarinnar. Máski hefur maðurinn ágæti í miðasölunni ekki áttað sig á því að  mennirnir tveir með úfna ljósa hárið og í fötunum ljótu sem stóðu við miðasöluna voru 0,000667% hinar íslensku þjóðar, allavegna hafði hann takmarkaðan áhuga á að hleypa okkur inn út á framandi vegabréfin.

Við deyjum aldrei ráðalausir. Á miða skrifum við nokkur hnyttin orð á okkar ylhýru tungu og biðjum dyravörð um að koma því til landa okkar.

Þremur tímum seinna hefur ekkert svar borist og allar mögulegar afsakanir uppurnar. Staðreyndin blasir við okkur. Þeim er í raun skítsama þótt við komum líka frá skeri í Norður-Atlantshafi. Með tár í augunum og hjarta fullt af sorg gengum við með lútin höfuð upp á bryggjuna. Þegar ég verð frægur fá Mezzoforte ekki að koma á sýninguna mína, hvað sem það svosem verður sem ég sýni (Friðrik Karlsson má þó koma enda var hann ekki með þeim í Búdapest). Stundum er ekkert sérstakt að vera Íslendingur, takk fyrir ekkert Mezzoforte.

4 mánuðir af því að sofa í sama rúmi, borða á sama stað, vakna saman og sofna saman, getur tekið sinn toll.

Daginn eftir höfnunina frá Mezzoforte vorum við að aka um Ungverjaland, í krummaskuði nokkru sem ég og Guð höfum gleymt. Eins og miðaldra hjón vorum við að pexa um allt og ekkert, enn og aftur.

Ég gnísti tönnum, ríghélt í stýrið og stífnaði allur upp, blótaði í sand og og ösku og horfði með fyrirlitningasvip til hægri á andlit farþegans sem hafði verið það síðasta sem ég sá á hverju kvöldi og það fyrsta sem ég sá á hverjum morgni í fjóra langa mánuði. Ég komst að því að tveir möguleikar væru í stöðunni:

1. Myrða Hauk og fela líkið.

2. Fá pásu frá Hauk og sleppa við vesenið sem fylgir því að reyna troða líki, þó litlu sem Hauks, í skottið á Mini Cooper.

Sem boð af himnum ofan sé ég skilti sem bendir á lestarstöð bæjarins. Ég tek krappa beygju þannig að ískrar í dekkjunum, enda mannslíf í húfi. Ég rýk út úr rauða hertoganum og inn á stöðina. Þar er mér sagt að lest fari til Búdapest eftir 15 mín. Ég stekk því út í bíl og gríp litla bakpokan minn og hefst við að troða hann út af nærfötum og kexi, aðeins nauðsynjar.

Haukur:“Nonni, hvað ertu að gera?“

Nonni:“Það er lest að fara til Budapest eftir 15 mín. Ég ætla að vera um borð.“

Haukur:“Jájá…ha?“

Nonni:“Haukur, ef ég fæ ekki pásu í nokkra daga þá neyðist ég til að myrða þig.“

Haukur:“Ok.“

Upp í lestina rauk ég og skildi við rúmlega 66% tríósins. Um kvöldið var ég kominn til Bratislava í Slóvakíu. Þar svaf ég á hosteli. Við vorum vissulega orðnir eins og gömul hjón, skilin að borði og sæng, „on a break“.

Þrem dögum síðar undir skemmtilegri kringumstæðum sameinaðist tríóið aftur í Vínarborg. Nú erum við hjá Báru frænku og ætlum að vera hérna í nokkra daga. Hér vantar ekki stuðið enda aldrei lognmolla í kringum Hönnu Sól og keppumst við Haukur við að reyna að halda í við þennan orkubolta. Gamlir og lúnir menn á þrítugsaldri eins og við eigum engan séns, þurfum sí og æ að setjast niður og hvíla lúin bein á meðan Hanna Sól hoppar og skoppar.

Maður hefur ekki komið til Vínar fyrr en maður hefur farið í Vínarsinfóníuna. Við klæddum okkur upp í okkar fínasta púss, sem er ekkert rosalega fínt púss, og tókum okkur sæti í verstu og ódýrustu sæti sem húsið býður uppá. Á sviðinu sjálfu, fyrir aftan drumbuslagarann, simbalaleikarann og þríhyrningsspilarann, sátum við í tvo tíma og klóruðum okkur í hökunni með þenkjandi menningarsvipi. Þarna, fyrir aðeins 18 evrur fundum við okkar köllun í lífinu. Að sigra heiminn sem bestu þríhyrningsspilarar jarðar. Auðvitað yrði það ekki auðvelt líf, bestu tónlistamennirnir deyja ungir, oftast 27 ár. Best að fara  fara að drífa sig að æfa.

Eftir óteljandi tíma í sólinni að reyna að bakast greip ég til örþrifaráða. Í slóvesku apóteki benti afgreiðslukona mér á að bera á mig ólívuolíu. Ef ég myndi bera á mig ólívuolíu og liggja í sólinni myndu allir mínir viltustu draumar rætast. Eins lélegur og ég er að standast dáleiðslu sölumanna, jafnvel afgreiðslukvenna í apótekum, rétti ég henni pening með bros á vör og rauk út í sólina. Olíuborinn og sleipur, líkt og vaxtaræktarkeppandi í ógeðslega lélegu formi lá ég í sólinni með bros á vör enda hugsaði með tilhlökkun til bronsaða litsins sem olían myndi gefa mér.

Nokkru seinna stóð ég niðurlútur við spegilinn. Lygakvendi! Enginn gullinbrúnn litur. Aðeins olíuborinn hálfviti með tóma vasa.

Ég áttaði mig hinsvegar á því að brúnka er afstæð. Maður getur verið heltanaður, það er bara spurning við hvað maður miðar. Auðvitað fannst mér ég aldrei vera brúnn í Afríku. Leyndarmálið er að umgangast rétta fólkið. Hildur Cesil vill ég umgangast sem allra mest, reyndar ekki bara út af þessari augljósu ástæðu.

 

Nú fer að styttast í heimkomu. Haukur og Hertoginn fara með Norrænunni til Íslands þann 19. maí en ég flýg heim frá Lundúnum þann 1. júní og kem væntanlega vestur á firði næsta dag. Þá tekur við sumar líkt og mánuðina 5 á undan. Hinsvegar þarf ég að vinna þessa sumarmánuði á Íslandi og í augnablikinu hef ég enga vinnu.

Ef þú, lesandi góður, veist um atvinnu fyrir ungan mann hafðu þá samband. Ég set aðeins tvö skilyrði:

1. Starfið þarf að vera gríðarlega vel launað.

2. Starfið þarf að vera gríðarlega skemmtilegt.

Hafið samband annaðhvort með því að skrifa athugasemd við færsluna, sendið rafpóst á nonnidelnorte@hotmail.com eða talið við mömmu mína sem annast málefni mín í miðju Atlantshafi.

Vinna… eilíf vinna

Lífið er ekki alltaf dans á rósum. Eftir mikið letikast þar sem ekkert hafði verið unnið dögum saman var kominn tími á að spýta í lófa. Eftir aðeins einn dag í Aþenu var flúið á ströndina og unnið í brúnkunni. Liturinn, sem var meira í áttina að rauðum en hinum eftirsótta brúna, var þó vel þeginn og mun koma sér vel þegar við berum okkur saman við föla eyjaskeggja, nýskriðnir úr fylgsnum eftir vetrardvalann.

Ég að vinna

Haukur var svo duglegur. Vinna vinna vinna

Eftir sex nætur í Grikklandi, sennilega skemmtilegustu Grikklandsferð sem ég hef nokkurn tímann farið í, vorum við komnir norður til Makedóníu. Af þessum sex nóttum var aðeins borgað fyrir eina og prófað var að sofa í þrumunni. Það er að segja Haukur prófaði að sofa, ég prófaði að sitja í bílnum þangað til að sólin kom upp og hægt væri að keyra.

 Við erum allavegna núna komnir til Makedóníu í bæinn Штип (Stip), heimabæ Borce og Pance í KFÍ. Þegar ég var að nálgast heimalandið þeirra hafði ég samband við þá með von um svefnpokapláss í landinu. En nei, ekkert svoleiðis.

Í staðinn er farið með okkur eins og kónga, eigin íbúð og okkur endalaust boðið upp á mat og menningu. Í stað þess að keyra í gegnum landið höfum við ílengst hérna í nokkra daga og notið dvalarinnar í botn hjá fjölskyldu og vinum Borce og Pance. Makedónskur matur og drykkur, menning og djamm, fólk og veðrátta; allt þetta fær fullt hús stiga. Eitt sprengir þó kvarðann og það er gestrisnin. Svei mér þá ef maður er ekki kominn með nýtt uppáhalds land. Þúsund milljón þakkir, hvernig borgar maður svona aftur?

Ekki sakar að fáninn er klikkað kúl.

Þetta er síðasti dagurinn í Makedóníu. Á morgun verður haldið til Serbíu og vonandi náum við til Belgrad fyrir myrkur á morgun. Meira þá.

Páskandinn

Brúnir og með bakpoka fulla af draumum komum við til Búlgaríu. Planið var að worka síhverfandi tan og halda upp í gegnum austur Evrópu. Búlgaría tók hins vegar á móti okkur með kulda og úða af himnum, nokkuð sem við kunnum illa við. Við fórum einu sinni á ströndina í flíspeysu, sterkir sólargeislar Svartahafsins ná ekki í gegnum þykka 66° norður klæðnaðinn og brúnkan hélt því áfram að fölna. Fólk sem við hittum var farið að kalla okkur Rainmen og bað okkur um að yfirgefa svæðið, með hjörtun kramin gáfumst við upp. Höfðu veðurguðirnir haft betur?

Nei! Ekki skyldi haldið heim með skottið milli lappana. Haldið skyldi suður! Þar drýpur smjörið af hverju strái og til að sjá við Kuldabola skyldum við fara á eigin farartæki sem auðvelt væri að lauma framhjá honum. Því var fjárfest í bifreið, draumabifreið, og þotið í átt að Miðjarðarhafinu.

Við komum í skínandi sól til Aþenu í gær. Aþena er ógeðslega dýr á afrískum mælikvarða og við tímum ekki að borga oftar fyrir gistingu. Eftir eina nótt á leiðinlegu hosteli ætlum við að halda áfram för okkar á rauðu þrumunni, finna strönd, slá upp tjaldi, og bakast. Hananú.

Það er samt skrítið að vera í Búlgaríu og Grikklandi um páskana. Hvar er páskaandinn? Hvar eru fullu táningarnir? Hvar eru partýin? Hvar er rokkið og bjórinn? Einhverstaðar eða einhvertímann hafa þeir tapað páskaandanum og tapað sér í að nýta páskana í að slaka á í faðmi fjölskyldunnar og íhuga lífsins gang… edrú.

Grókir páskar

Páskar? Hvar er hátíðarandinn?

Rokk og Ról

Stuð, bjór og rokk og ról. Það er sanni páskaandinn.

Haukur hefur tekið fullt af myndum af okkur því ég nenni því ekki. Hef er brot af því sem hefur gerst.

10.jpg

Veisla til að fagna „sumrinu“ í Búlgaríu. Ungfrú Búlgaría lét sig sko ekki vanta og né heldur einhverjar fleiri stúlkur úr fegurðarsamkeppnum. Við þóttumst vera blaðamenn, Haukur tók myndir og við úðuðum í okkur frían mat.

11.jpg

Ég fór í röð ásamt hormónafullum búlgörskum ungmennum og fékk eiginhandaáritun. Af svipnum að dæma taldi frökenin mig vera þroskaheftan og blaðamannaleikurinn var úti.

13.jpg

Þetta er Ali Baba.  Hann er Tyrki.

15.jpg

Þetta er Haukur í skíða/ökugallanum.

16.jpg

Við áttum ekki skíðalausa páska. Við stoppuðum á leiðinni til Grikkands á flottasta skíðasvæði Búlgara: Bansko. Heill dagur í sól og blíðu í þessum fínu brekkum. Ég lét ekki segjast og neitaði að bera sólarvörn á mig. Veðurguðirnir náðu fram hefndum; andlitið skaðbrunnið og rautt eins og bíllinn.

141.jpg

Banani og bjór: Breakfast of Champions.

17.jpg

Við erum ekki lengur dúett, heldur tríó. Bíllinn okkar, Austin Mini Rover, 996 kúplika, 55 hestafla tryllitæki er engin vél, heldur lifandi vera með sál. Honum finnst gott að láta strjúka á sér toppinn og honum finnst bensín gott. Þegar við löbbum frá honum gefur hann frá sér sorgarhljóð og hann á erfitt með að vakna á köldum morgnum, alveg eins og pabbi sinn. Það getur enginn sagt að þetta sé einungis vél. Um Evrópu ætlum við núna að þjóta, þ.e.a.s. þangað til bíllinn segir stopp.

Gleðilega rokkpáska.

Eþjópía, ó Eþjópía

Semien

Nokkrar myndir frá draumalandinu Eþjópíu eru komnar á myndasíðuna. Njótið vel.

-Haukur

Evrópa býður ekki eingöngu upp á setuklósett, skeinipappír og kleinuhringi með súkkulaði. Einn af kostum álfunnar er internet sem er ekki módemtengt, það þýðir að mögulegt er að hlaða alls konar skemmtilegheitum á alnetið. Hér eru nokkur dæmi:

-Nonni

Back to the Future – Leitin að Halim Al

Það er tímabært að skrifta.

Síðan ber ekki lengur nafn með rentu þar sem við erum ekki lengur i Afríku. Atburðarrásin var eitthvað á þennan veg:

Nokkrir heimskir Bretar voru að þvælast um eitt hættulegasta svæði heimsálfunnar, á landamærum Erítreu og Eþíópíu. Auðvitað eru þeir teknir fastir og ríkistjórnir landanna kenna hvor annarri um. Afleiðingin var að ferðalangar með vegabréf mengað af eþíópískum stimpli fengu ekki inngöngu í Erítreu, þrátt fyrir að farið væri í gegnum Djíbúti.

Ennþá í Addis Ababa, komnir með áritun til Djíbúti veltum við vöngum yfir hvert förinni skyldi heitið. Regntímabilið að fara að skella á, vegabréfsáritunin senn á enda, tíminn að renna út. Búnir með norðrið, rigning í vestri og suðri og stríð í austri. Afríka var að bola okkur út úr álfunni.

Til að gera langa sögu stutta hoppuðum við upp í næstu vél til Súdan og flugum þaðan til Dubai. Áttum tvo ótrúlega daga þar og flugum svo til Istanbúl með viðkomu í Bahrein. Við erum núna í Tyrklandi og ætlum landleiðina til norður-Evrópu í gegnum austur-Evrópu. Hananú.

Við höfðum undirbúið ferðalagið líkt og úlfaldar á leið yfir eyðimörk. Tíu tíma bið í Súdan þar sem engin bjór yrði á boðstólnum, svolgrað var bjór fyrir öll afgangsbirrin. Þegar við vorum á leið í gegnum vegabréfskoðunina heyrum við framandi hljóð.

Rigningin að berja þak flugstöðvarinnar vakti, furðulega séð, mikla lukku hjá drukknu Íslendingunum sem hrifsuðu vegabréfið undan dynjandi útgöngustimpli landamæravarðarins. Í gegnum beltisvölundarhúsið hlupu þeir í átt að dyrunum, framhjá öryggisvörðunum. Þeir eltu Íslendingana út á götuna þar sem þeir sungu rigningardans og böðuðu sig í rigningunni. Fjótlega breyttust þó grimmu svipir varðanna í furðusvipi, enda þekktu þeir ekki lagið og skildu ekki texta „Húsið og Ég“. Á meðan þeir sungu og dönsuðu trylltan dans höfðu verðirnir ekkert að segja nema:„We think you drink.“

Ég: „No you don’t understand. We don’t have much rain in our country. When it starts to rain, it’s a part of our culture to go out and sing and dance. We celebrate rain like we celebrate the birth of new life, the circle of life. That’s when we sing this song by SSSól.“

Hann:„We think you drink.“  

Þrátt fyrir áfengismagnið í blóðinu vorum við ekki lausir við hnút í maganum þegar við stigum upp í vél Sudan Airways á leið til Khartoum.Ýmsar ástæður voru fyrir því. Þegar við sátumst niður leit ég í kringum mig og horfði á múslimana biðja til Allah líkt og það yrði engin morgundagur.

Flugstjórinn:„We thank you for choosing Sudan Airways and hope you have a nice flight… in the name of Allah.“

Mér fannst þjóðráð að óla mig sem fastast við þennan málmfugl sem hafði séð betri daga, sennilega á tímum kalda stríðsins. Ég teygi mig eftir beltinu og hyggst spenna það þegar það gefur eftir, í hendinni hélt ég á eina öryggistæki sem ég hafði. Þetta er fínn minjagripur.

 Önnur ástæða fyrir taugatitringnum er að ég er ekki vanur tímaflakki. Þar sem við værum að fara til lands þar sem Sharia lög eru í gildi er væntanlega múslimatímatal, það þýðir að fyrst myndum við ferðast frá árinu 1999 til ársins 1429. Þaðan færum við til Dubai þar sem árið væri 2007. Gamla flugvélin var ekkert eins og DeLorean bíl Emmets Brown og ég sá ýmislegt sem gæti klikkað. Ég vissi það, eftir að hafa horft á Back to the Future, að það er ýmislegt sem maður mætti ekki gera. Að gera einhverja vitleysu gæti breytt mannkynssögunni á vegu sem erfitt væri að ímynda sér, það gæti jafnvel orðið til þess að ég yrði aldrei fæddur.

Þegar við lentum í Khartoum á árinu 1429 var hluti af mér að vonast eftir að þar væri Dr. Emmett Brown að bíða eftir mér til að hughreyst mig. Við myndum eiga ævintýralegar og spennandi samræður líkt og:  

Doc Brown: No! It can’t be; I just sent you back to the future! To Ethiopia!

Nonni og Haukur: No, I know; you *did* send us back to the future. But we’re back – We’re back *from* the future. 

Doc Brown: Great Scott! 

En þar beið ekkert nema holuklósett og gamalt kex. Tíu tíma biðin í á árinu 1429 yrði erfið. Sem betur fer voru áhrif eþíópíska bjórsins enn sterk, við vorum fullir í Súdan.

Á endanum stigum við aftur upp í tímavélina en í þetta skiptið klikkaði eitthvað. Hvort það var Flux Capacitor-inn eða eitthvað annað veit ég ekki. Það eina sem ég veit er að við fórum allt of langt í framtíðina. Á staðnum sem við lentum á keyrðu glæstibílar um götuna, háhýsi hvert sem litið var og þar var innanhússkíðasvæði í stærstu verslunarmiðstöð heims.

Fyrir ykkur forvitnu er framtíðin fín. Allt er hreint og fólk er ríkt. Byggðar verða stærstu manngerðu eyjar mannkynssögunnar í formi pálmatréss og svo verður byggður eyjaklasi í í lagi eins og heimurinn.

Það sem mun koma enn lengra í framtíðinni verður ný stærsta verslunarmiðstöð heims, 3svar sinnum stærri en sú gamla. Þar verður nýtt og betra skíðasvæði. Brekkan verður lengri og á færibandi, hún mun renna upp á móti þér þannig að maður mun hafa lengri tíma í brekkunni. Ekki nóg með að maður mun fara niður brekkuna, brekkan mun fara upp mann.

Haesta bygging heims. Þeir segja ekki hvað hún verður stór til að koma í veg fyrir að vera toppaðir. Samt eru þrjár byggingar á bið sem eiga að verða hærri og byggingin útbúin þannig að hægt verði að bæta ofan á hana.

Dubailand, stærsti skemmtigarður heims. Disney voru of íhaldssamir og voru því reknir, 278 ferkílómetrar af klikkuðum tækjum og skemmtilegheitum.

Tveir dagar í framtíðinni, á 17 hæð í lúxusíbúð í flottasta hverfi Dubai, voru frábærir. Takk fyrir allt saman Magnús, það verður erfitt að borga þetta tilbaka.

Núna erum við í Istanbúl, einu heimsborg jarðar sem er staðsett í tveim heimsálfum. Fín og frábær borg með skemmtilegu og furðulegu fólki. Við kíktum til Asíu í dag, þar voru engar núðlur og engin gulur og lítill. Fólkið var samt hresst og æst í að spjalla þrátt fyrir að tala ekki stakt orð í ensku. Íslensku – tyrknesku samræðurnar voru hressandi og bárust oft að Halim Al. Engin virðist þekkja hann og hann er ekki celebið sem ég hélt að hann væri. Hér munum við eyða samt nokkrum dögum og leita að Halim Al, við vonum að hann verði hress. Ef hann er eitthvað eins og aðrir Tyrkir, þá er það ekki spurning.

Ójá

Sírenusöngur – Breytingar

„Long afloat on shipless oceans
I did all my best to smile
‘Til your singing eyes and fingers
Drew me loving to your isle
Sail to me
Sail to me
Let me enfold you
Here I am
Here I am
Waiting to hold you
Did I dream you dreamed about me?
Were you Hare when I was fox?
Now my foolish boat is leaning
Broken lovelorn on your rocks
Touch me not, touch me not,
Oh, come back tomorrow;
Oh my heart, oh my heart
Shies from the sorrow“

Ó Khartoum, hve seiðandi er þinn söngur.

Hvað er svona merkilegt við það að vera karlmaður? Er það eitthvað sérstakt?

Þrátt fyrir bloggleysi er ekki hægt að kenna ævintýraleysi um, síður en svo. Eþíópíska internetið, gamlar módemtengirnar með upphringihljóðinu sem vekja upp gamlar minningar er um að kenna.

Við höfum verið uppteknir við að rækta karlmennsku okkar og nýta okkur hana. Eftir síðustu færslu fór norðurlandatríóið í ævintýraleit um eþíópísku Simienfjöllin. Við héldum upp í fjöll ásamt verðinum okkar Marsjet sem var vopnaður 50 ára gömlum ítölskum riffli, múlasnanum Múllah og eiganda hans, David.

Í tjaldbúðunum litum við með fyrirlitningu til helvítis „túristanna“ sem komu að tjöldunum sínum tjölduðum og í stað þess að fara í það að kveikja eld voru þeir spurðir hvort þeir vildu „french toast or pancakes“ í morgunmat. Nei! Ekki víkingarnir! Þrátt fyrir að hitinn færi niður fyrir frostmark hikuðum við ekki við að sofa í bónustjaldinu okkar. Kveikt var bál og keypt var rolla af innfæddum. Henni var slátrað að heiðnum sið, hún var verkuð og grilluð yfir opnu báli. Órakaðir, skítugir, illa lyktandi étandi blóðugt og brennt kjöt af beini vöktum við athygli „túristanna“. Áætlunin tókst, augnráðin voru full af aðdáun og ótta. Þeir sváfu laust þessa nótt með villimennina í næsta tjaldi, víkinga sem kalla ekki allt ömmu sína.

Eftir fjallaferðina klofnaði hópurinn. Svíinn sagðist ekki vilja fara í Indiana Jones leiðangur og leita að sáttmálsörkinni í Aksum og leitaði því suður á bóginn. Það sem eftir var af tríóinu, upprunalegi dúettinn Nonni og Haukur, héldu norður. Raiders of the Lost Arc.

Gist var eina nótt í smábænum Shire í norður Eþíópíu. Vissi ég af stórleik Barcelona og Liverpool í meistaradeildinni, nokkuð sem fótboltaóðir Eþíópíubúar láta ekki framhjá sér fara þrátt fyrir að leikurinn byrji ellefu um kvöld hjá þeim. Mér var vísað á hótel í bænum sem var með moldarkofa í garðinum sem sýndi fótboltaleiki. Ég sast niður innan um Eþíópíubúana sem voru að rifna úr spennu. Þegar ljósin voru slökkt og leikurinn byrjaði sá ég ekki dökku andlitin sem troðfylltu kofann. Ég sá ekki dökku verurnar sem ég faðmaði og föðmuðu mig í taumlausri gleðinni þegar rauði herinn skoraði í katalónska markið. Það skipti svo sem engu máli, það eina sem skiptir máli er að vera með rautt hjarta, allt annað er aukaatriði. Þá gengur maður aldrei einn, „You’ll Never Walk Alone“.

Eftir leikinn gengum við út í myrkrið og leiddumst. Með fingurna læsta saman gengum við áleiðis á hótelið syngjandi bjöguðustu útgáfu „You’ll Never Walk Alone“ sem ég hef nokkurn tímann heyrt. Maður finnur bræður sína á ótrúlegustu stöðum.

Aksum er draugabær þegar það er low-season. Eftir að hafa rölt um í nokkra tíma og engin heimtaði pening af okkur leist okkur ekkert á blikuna. Líkt og að vera fastur í lélegum Twilight Zone þætti fékk maður gæsahúð sem ómögulegt var að losna við. Líkt var að plágan hefði gengið yfir og ekki einu sinni hægt að fá ávaxtasafa í bænum. Við hétum við því að yfirgefa bæinn við fyrsta tækifæri. Rassgatið hans Hauks var á öðru máli og vildi endilega vera lengur í Aksum. Eftir tveggja daga töf og endalausar klósettferðir Hauks vorum við á því að best væri að ræða við lækni. Ég fer og ræði við eigandan og bið hana um að hringja í lækni. Maður nokkur heyrir samtal okkar og segist vera í hjúkrunarnámi og er til í að kíkja á hann. Ég tel okkur hafa engu að tapa og vísa honum inn. Eigandinn er furðuleg á svipinn.

Hún:„He no doctor.“

Ég:„He’s not a doctor? But he’s studying to be a nurse, right?“

Hún:„No. He crazy.“

Ég skýst inn í herbergi og sé þar náungan sitja í rúminu mínu, étandi kexið mitt. Haukur fárveikur og lasburða nær að safna kröftum í ad spyrja hvern fjandann þessi gaur sé að gera. Ég þríf í hnakkadrambið náungans og fleygi honum út, hann virtist ekki hissa.

Eftir að hafa rætt við alvöru lækni og fullvissað okkur um að rassgatið hans Hauks myndi lifa af héldum við för okkar áfram. Næsta stopp: Debre Damo munkaklaustrið í norður Eþíópíu. Ekki veit ég hvort munkarnir kannist við Grýlusmellinn en þeim finnst ansi sérstakt að vera karlmaður. Konum er ekki hleypt inn. Ekki einu sinni kvenkyns dýr fá að koma inn, þar eru t.d. engar hænur.
Fín regla, engar kellingar.

Það merkilega við klaustrið er að það er byggt ofan á klett og alvöru karlmenn sem koma í heimsókn þurfa að klifra 24 metra upp reipi úr geitahúð til að komast að. Eftir að hafa gengið tíu til fimmtán kílómetra yfir sveitir Eþíópíu til að komast að klaustrinu var löngu komið myrkur. Eins og sena úr gamalli hryllingsmynd með aðeins tungsljósið til að leiðbeina okkur ráfuðum við um gamla sveitavegi upp á hæð að klettinum og ákölluðum munkana með þá von um að þeir myndu aumka sér yfir okkur og gefa okkur karlmönnunum aðgang. Á endanum var reipi kastað niður, líkt og dökkir himnarnir sjálfir væru að gefa okkur aðgang að himnaríki. Þeir leyfðu okkur að gista í gólfinu í herbergi Abo Sakkaríasar. Flóabitinn og stífur í hálsi vaknaði ég samt með bros á vör, enda útsýnið stórkostlegt og munkarnir frábærir.

Við launuðum gistinguna með því að elda grjónagraut ofan í munkana og gefa þeim ýmislegt sem við höfðum í pokahorninu eins og dós af tómatpúrru, makkarónur, kort af heiminum og tvo lítra af eþíópísku Ouzo, 42,5 % vínandi. Hvorki var hægt að þurrka brosin af okkur né munkunum þegar við sátum á gólfinu og slöfruðum í okkur bananasúkkulaðigrjónagraut*. Fyrir okkur var ástæðan veran í klaustrinu, án efa hápunktur Eþíópíu. Fyrir munkana var það ástæðan sennilega grjónagrauturinn, enda hikuðu þeir ekki við að nýta gjöfina og hella smá víni í grautinn.

Heimurinn getur verið lítill. Ofan á þessum kletti, í 1600 ára gömlu munkaklaustri lengst úti í rassgati norður Eþíópíu, þar sem engir hvítir menn höfðu komið í nokkra daga, er fyrsti gestur dagsins Íslendingurinn Magnús Dagur. Án efa brá honum þegar hann sá ljóshærðan víking stinga hausnum út um herbergi Abo Sakkaríasar og segja:„Þú ert að fokking grínast!“

Eþíópía er sérstakt land. Í bíóinu hérna er verið að sýna myndirnar Die Hard 2, The Beach, Surf Ninjas og American Ninja 3. Ásamt hæga internetinu var erfitt að skilja af hverju Eþíópíu var svona mikið eftir á þangað til við komumst að skemmtilegri staðreynd. Þeir eru einfaldlega ekki svona mikið eftir á…

Eþíópía (fyrir utan Líberíu) er eina Afríkulandið sem varð ekki nýlenda þegar Evrópumenn tóku að leggja álfuna undir sig. Í anda sjálfstæðishyggjunar láta þeir sko ekki segja sér hvernig þeir eiga að haga hlutunum og gefa frat í tímakerfi Evrópubúa, sem þeir auðvitað telja að sé kolrangt og kjánalegt.

Hér er ekki árið 2007, heldur 1999.

Dagurinn byrjar ekki á miðnætti heldur þegar sólin kemur upp. Því er miðnætti klukkan 6 og 6 um morguninn klukkan 12.

Í Eþíópíu eru 13 mánuðir, hver mánuður 30 dagar. 13 mánuðurinn er 5-6 dagar til að „rétta dagatalið af“.

Það er því fyndið að spyrja innfæddan hvað klukkan sé og hver dagsetningin sé. Í stað hálf tvö þann 7. mars 2007 var klukkan hálf átta þann 26. júní á því drottins ári 1999.

Eþíópíubúar eru því ekki eins eftir á og maður telur og raunar mjög klárir. Á meðan við vorum eins og kjánar að stressa okkur á Y2K vandanum fyrir sjö árum eru þeir kúl á því, ekkert stress. Í stað þess að læsa sig niðri í kjallara með þurrmat er fólk að undirbúa stærsta partý sem landið hefur séð, alveg laust við áhyggjur um að á miðnætti muni flugvélar hrapa og mjólk skyndilega verða rosalega súr. Þótt við verðum ekki hérna fyrir hátiðarhöldin látum við ekki okkar eftir liggja þegar kemur að því að skemmta okkur og öðrum. Ég vitna í Listamanninn:

Lemme tell ya somethin’
If U didn’t come 2 party
Don’t bother knockin’ on my door
I got a lion in my pocket
And baby he’s ready 2 roar

Yeah, everybody’s got a bomb
We could all die any day
But before I’ll let that happen
I’ll dance my life away

They say two thousand zero zero party over
Oops out of time
We’re runnin’ outta time
So tonight we gonna, we gonna (Tonight I’m gonna party like it’s 1999)

Það er ekkert annað að gera en að djamma eins og það sé 1999.

Við Haukur vekjum víða mikla atygli enda hann náttúrulega ljóshærður og ég sama og ljóshærður eftir að hafa notið ómælds magns sólarljóss. Ég var löngu búinn að kaupa mér Indiana Jones skyrtu og var að bíða eftir að vera líkt við hetjuna mína, Henry Jones Jr.. Ég taldi að biðin væri á enda þegar „hótel“**stjórinn tók mig á tal.

Hann: „You look like actor in movie Air Force One.“

Ég ætlaði að rifna úr gleði. Með hamingjutár kreisti ég fram orðin tvö sem gera nafn hetjunar og aðalleikara bæði Indiana Jones og Air Force One.

Hann:„No. Not Harrison Ford. Another movie. Air force, fighter jets, Maverick.“

Miður mín spyr ég:„Top Gun?“

Hann:“Yes! Top Gun! You look like actor from Top Gun!“

Ég:„Tom Cruise?“

Hann:„Yes! Tom Cruise! Are you his brother?“

Ég útskýrði fyrir honum að, með fullri virðingu fyrir Gunna bróðir, ég væri ekki bróðir Tom Cruise. Í fyrstu steig þetta mér til höfuðs, sérstaklega þar sem mér hafði einnig verið líkt við David Beckham og „that guy in the movie about the big ship“. Ég sveif um á hégómaskýi, Hauk til mikils ama. Fljótlega hrapaði á jörðina með miklum skell. Ég áttaði mig á því hvernig Íslendingar og Afríkubúar koma hvorum öðrum fyrir sjónir. Í Súdan taldi ég mig hafa séð Danny Glover ellefu sinnum og Morgan Freeman átta sinnum, einnig hitti Haukur Wesley Snipes.

Núna erum við komnir til höfuborgarinnar Addis Ababa og nýtt lag hefur bæst við í söngbókina.

Addis Abbababb(Við lagið Abbababb):

Addis Ababa Addis Ababababb
Addis Ababa Addis Ababababb
Addis Ababa Addis Ababababb
Addis Ababa Addis Ababababb
Addis Addis Ababababababa
Addis Addis Ababababa
Addis Addis Ababababababa
Addis Addis Ababababa

Við höfum verið hér í nokkra daga og líkar dvölin vel. Flottir og ódýrir barir og veitingastaðir og fólkið bara nokkuð hresst og skemmtilegt. Aldrei ætla ég að segja að fólk eigi að klára matinn sinn og hugsa um fólkið í Eþíópíu sem fær ekkert að borða. Nautasteik með glasi af Suður-Afrísku rauðvíni kostar aðeins 300 kall! Það er ekkert verð.

Svo virðist sem babb sé komið í bátinn og fyrri ferðaáætlun sé úr sögunni, ástæðan hefur verið mikið í fréttum á Bretlandseyjum. Meira um það seinna.

Haukur er búinn að uploada myndir á netið en nennir ekki að setja þær á þessa síðu. Skoðið þær á myndasíðunni hans og njótið vel:
Smellið hér!

*Eþíópíubúar hófu að fasta daginn sem við komum til landsins, okkur til mikillar gleði. Á þessum tíma er bannað að borða dýr eða dýraafurðir. Þetta vissum við ekki á tímum bananagrjónagrautsins og eitruðum því fyrir strangtrúuðum munkunum með syndlega súkkulaði. Leiðsögumaður nokkur útskýrði þetta fyrir okkur og var alveg miður sín. Hann lofaði að segja munkunum frá þessu svo þeir gætu beðið um fyrirgefningu og sloppið við vist í helvíti. Það væri leiðinlegt að eftir að hafa fylgt reglunum alla ævi í munkaklaustri að finna sig við dyr vítis þegar þeir deyja, allt út af helvítis túristaeitrun. Fyrir heiðingjana, þá segjum við að grauturinn er þess virði að brenna að eilífu fyrir, hann er ljúffengur!

Vítisorsök synduga munksins / Bananasúkkulaðigrjónagrautur:
Slatti af hrísgrjónum
Nokkrir bananar
Egypst súkkulaðistykki
Einn skammtur af kaffidufti
Dash af sykri
Slurkur af ouzo

Hrísgrjónin soðin og öllu er blandað úti eftir hentisemi.

**Við gistum aðallega á börum sem eru með bakherbergi aðallega nýtt af innfæddum til að njóta ásta, oft gegn greiðslu. Þetta eru einfaldlega ódýrstu staðirnir. Mjög smekklegt oft að sjá smokkabréfin undir rúminu og sofna við frygðarhljóð Eþíópíubúa. Við reynum að fullvissa okkur um að skipt sé oft og títt um rúmföt, ekki mikil sannfæringartónn er í okkur.