Þrátt fyrir bloggleysi er ekki hægt að kenna ævintýraleysi um, síður en svo. Eþíópíska internetið, gamlar módemtengirnar með upphringihljóðinu sem vekja upp gamlar minningar er um að kenna.
Við höfum verið uppteknir við að rækta karlmennsku okkar og nýta okkur hana. Eftir síðustu færslu fór norðurlandatríóið í ævintýraleit um eþíópísku Simienfjöllin. Við héldum upp í fjöll ásamt verðinum okkar Marsjet sem var vopnaður 50 ára gömlum ítölskum riffli, múlasnanum Múllah og eiganda hans, David.
Í tjaldbúðunum litum við með fyrirlitningu til helvítis „túristanna“ sem komu að tjöldunum sínum tjölduðum og í stað þess að fara í það að kveikja eld voru þeir spurðir hvort þeir vildu „french toast or pancakes“ í morgunmat. Nei! Ekki víkingarnir! Þrátt fyrir að hitinn færi niður fyrir frostmark hikuðum við ekki við að sofa í bónustjaldinu okkar. Kveikt var bál og keypt var rolla af innfæddum. Henni var slátrað að heiðnum sið, hún var verkuð og grilluð yfir opnu báli. Órakaðir, skítugir, illa lyktandi étandi blóðugt og brennt kjöt af beini vöktum við athygli „túristanna“. Áætlunin tókst, augnráðin voru full af aðdáun og ótta. Þeir sváfu laust þessa nótt með villimennina í næsta tjaldi, víkinga sem kalla ekki allt ömmu sína.
Eftir fjallaferðina klofnaði hópurinn. Svíinn sagðist ekki vilja fara í Indiana Jones leiðangur og leita að sáttmálsörkinni í Aksum og leitaði því suður á bóginn. Það sem eftir var af tríóinu, upprunalegi dúettinn Nonni og Haukur, héldu norður. Raiders of the Lost Arc.
Gist var eina nótt í smábænum Shire í norður Eþíópíu. Vissi ég af stórleik Barcelona og Liverpool í meistaradeildinni, nokkuð sem fótboltaóðir Eþíópíubúar láta ekki framhjá sér fara þrátt fyrir að leikurinn byrji ellefu um kvöld hjá þeim. Mér var vísað á hótel í bænum sem var með moldarkofa í garðinum sem sýndi fótboltaleiki. Ég sast niður innan um Eþíópíubúana sem voru að rifna úr spennu. Þegar ljósin voru slökkt og leikurinn byrjaði sá ég ekki dökku andlitin sem troðfylltu kofann. Ég sá ekki dökku verurnar sem ég faðmaði og föðmuðu mig í taumlausri gleðinni þegar rauði herinn skoraði í katalónska markið. Það skipti svo sem engu máli, það eina sem skiptir máli er að vera með rautt hjarta, allt annað er aukaatriði. Þá gengur maður aldrei einn, „You’ll Never Walk Alone“.
Eftir leikinn gengum við út í myrkrið og leiddumst. Með fingurna læsta saman gengum við áleiðis á hótelið syngjandi bjöguðustu útgáfu „You’ll Never Walk Alone“ sem ég hef nokkurn tímann heyrt. Maður finnur bræður sína á ótrúlegustu stöðum.
Aksum er draugabær þegar það er low-season. Eftir að hafa rölt um í nokkra tíma og engin heimtaði pening af okkur leist okkur ekkert á blikuna. Líkt og að vera fastur í lélegum Twilight Zone þætti fékk maður gæsahúð sem ómögulegt var að losna við. Líkt var að plágan hefði gengið yfir og ekki einu sinni hægt að fá ávaxtasafa í bænum. Við hétum við því að yfirgefa bæinn við fyrsta tækifæri. Rassgatið hans Hauks var á öðru máli og vildi endilega vera lengur í Aksum. Eftir tveggja daga töf og endalausar klósettferðir Hauks vorum við á því að best væri að ræða við lækni. Ég fer og ræði við eigandan og bið hana um að hringja í lækni. Maður nokkur heyrir samtal okkar og segist vera í hjúkrunarnámi og er til í að kíkja á hann. Ég tel okkur hafa engu að tapa og vísa honum inn. Eigandinn er furðuleg á svipinn.
Hún:„He no doctor.“
Ég:„He’s not a doctor? But he’s studying to be a nurse, right?“
Hún:„No. He crazy.“
Ég skýst inn í herbergi og sé þar náungan sitja í rúminu mínu, étandi kexið mitt. Haukur fárveikur og lasburða nær að safna kröftum í ad spyrja hvern fjandann þessi gaur sé að gera. Ég þríf í hnakkadrambið náungans og fleygi honum út, hann virtist ekki hissa.
Eftir að hafa rætt við alvöru lækni og fullvissað okkur um að rassgatið hans Hauks myndi lifa af héldum við för okkar áfram. Næsta stopp: Debre Damo munkaklaustrið í norður Eþíópíu. Ekki veit ég hvort munkarnir kannist við Grýlusmellinn en þeim finnst ansi sérstakt að vera karlmaður. Konum er ekki hleypt inn. Ekki einu sinni kvenkyns dýr fá að koma inn, þar eru t.d. engar hænur.
Fín regla, engar kellingar.
Það merkilega við klaustrið er að það er byggt ofan á klett og alvöru karlmenn sem koma í heimsókn þurfa að klifra 24 metra upp reipi úr geitahúð til að komast að. Eftir að hafa gengið tíu til fimmtán kílómetra yfir sveitir Eþíópíu til að komast að klaustrinu var löngu komið myrkur. Eins og sena úr gamalli hryllingsmynd með aðeins tungsljósið til að leiðbeina okkur ráfuðum við um gamla sveitavegi upp á hæð að klettinum og ákölluðum munkana með þá von um að þeir myndu aumka sér yfir okkur og gefa okkur karlmönnunum aðgang. Á endanum var reipi kastað niður, líkt og dökkir himnarnir sjálfir væru að gefa okkur aðgang að himnaríki. Þeir leyfðu okkur að gista í gólfinu í herbergi Abo Sakkaríasar. Flóabitinn og stífur í hálsi vaknaði ég samt með bros á vör, enda útsýnið stórkostlegt og munkarnir frábærir.
Við launuðum gistinguna með því að elda grjónagraut ofan í munkana og gefa þeim ýmislegt sem við höfðum í pokahorninu eins og dós af tómatpúrru, makkarónur, kort af heiminum og tvo lítra af eþíópísku Ouzo, 42,5 % vínandi. Hvorki var hægt að þurrka brosin af okkur né munkunum þegar við sátum á gólfinu og slöfruðum í okkur bananasúkkulaðigrjónagraut*. Fyrir okkur var ástæðan veran í klaustrinu, án efa hápunktur Eþíópíu. Fyrir munkana var það ástæðan sennilega grjónagrauturinn, enda hikuðu þeir ekki við að nýta gjöfina og hella smá víni í grautinn.
Heimurinn getur verið lítill. Ofan á þessum kletti, í 1600 ára gömlu munkaklaustri lengst úti í rassgati norður Eþíópíu, þar sem engir hvítir menn höfðu komið í nokkra daga, er fyrsti gestur dagsins Íslendingurinn Magnús Dagur. Án efa brá honum þegar hann sá ljóshærðan víking stinga hausnum út um herbergi Abo Sakkaríasar og segja:„Þú ert að fokking grínast!“
Eþíópía er sérstakt land. Í bíóinu hérna er verið að sýna myndirnar Die Hard 2, The Beach, Surf Ninjas og American Ninja 3. Ásamt hæga internetinu var erfitt að skilja af hverju Eþíópíu var svona mikið eftir á þangað til við komumst að skemmtilegri staðreynd. Þeir eru einfaldlega ekki svona mikið eftir á…
Eþíópía (fyrir utan Líberíu) er eina Afríkulandið sem varð ekki nýlenda þegar Evrópumenn tóku að leggja álfuna undir sig. Í anda sjálfstæðishyggjunar láta þeir sko ekki segja sér hvernig þeir eiga að haga hlutunum og gefa frat í tímakerfi Evrópubúa, sem þeir auðvitað telja að sé kolrangt og kjánalegt.
Hér er ekki árið 2007, heldur 1999.
Dagurinn byrjar ekki á miðnætti heldur þegar sólin kemur upp. Því er miðnætti klukkan 6 og 6 um morguninn klukkan 12.
Í Eþíópíu eru 13 mánuðir, hver mánuður 30 dagar. 13 mánuðurinn er 5-6 dagar til að „rétta dagatalið af“.
Það er því fyndið að spyrja innfæddan hvað klukkan sé og hver dagsetningin sé. Í stað hálf tvö þann 7. mars 2007 var klukkan hálf átta þann 26. júní á því drottins ári 1999.
Eþíópíubúar eru því ekki eins eftir á og maður telur og raunar mjög klárir. Á meðan við vorum eins og kjánar að stressa okkur á Y2K vandanum fyrir sjö árum eru þeir kúl á því, ekkert stress. Í stað þess að læsa sig niðri í kjallara með þurrmat er fólk að undirbúa stærsta partý sem landið hefur séð, alveg laust við áhyggjur um að á miðnætti muni flugvélar hrapa og mjólk skyndilega verða rosalega súr. Þótt við verðum ekki hérna fyrir hátiðarhöldin látum við ekki okkar eftir liggja þegar kemur að því að skemmta okkur og öðrum. Ég vitna í Listamanninn:
Lemme tell ya somethin’
If U didn’t come 2 party
Don’t bother knockin’ on my door
I got a lion in my pocket
And baby he’s ready 2 roar
Yeah, everybody’s got a bomb
We could all die any day
But before I’ll let that happen
I’ll dance my life away
They say two thousand zero zero party over
Oops out of time
We’re runnin’ outta time
So tonight we gonna, we gonna (Tonight I’m gonna party like it’s 1999)
Það er ekkert annað að gera en að djamma eins og það sé 1999.
Við Haukur vekjum víða mikla atygli enda hann náttúrulega ljóshærður og ég sama og ljóshærður eftir að hafa notið ómælds magns sólarljóss. Ég var löngu búinn að kaupa mér Indiana Jones skyrtu og var að bíða eftir að vera líkt við hetjuna mína, Henry Jones Jr.. Ég taldi að biðin væri á enda þegar „hótel“**stjórinn tók mig á tal.
Hann: „You look like actor in movie Air Force One.“
Ég ætlaði að rifna úr gleði. Með hamingjutár kreisti ég fram orðin tvö sem gera nafn hetjunar og aðalleikara bæði Indiana Jones og Air Force One.
Hann:„No. Not Harrison Ford. Another movie. Air force, fighter jets, Maverick.“
Miður mín spyr ég:„Top Gun?“
Hann:“Yes! Top Gun! You look like actor from Top Gun!“
Ég:„Tom Cruise?“
Hann:„Yes! Tom Cruise! Are you his brother?“
Ég útskýrði fyrir honum að, með fullri virðingu fyrir Gunna bróðir, ég væri ekki bróðir Tom Cruise. Í fyrstu steig þetta mér til höfuðs, sérstaklega þar sem mér hafði einnig verið líkt við David Beckham og „that guy in the movie about the big ship“. Ég sveif um á hégómaskýi, Hauk til mikils ama. Fljótlega hrapaði á jörðina með miklum skell. Ég áttaði mig á því hvernig Íslendingar og Afríkubúar koma hvorum öðrum fyrir sjónir. Í Súdan taldi ég mig hafa séð Danny Glover ellefu sinnum og Morgan Freeman átta sinnum, einnig hitti Haukur Wesley Snipes.
Núna erum við komnir til höfuborgarinnar Addis Ababa og nýtt lag hefur bæst við í söngbókina.
Addis Abbababb(Við lagið Abbababb):
Addis Ababa Addis Ababababb
Addis Ababa Addis Ababababb
Addis Ababa Addis Ababababb
Addis Ababa Addis Ababababb
Addis Addis Ababababababa
Addis Addis Ababababa
Addis Addis Ababababababa
Addis Addis Ababababa
Við höfum verið hér í nokkra daga og líkar dvölin vel. Flottir og ódýrir barir og veitingastaðir og fólkið bara nokkuð hresst og skemmtilegt. Aldrei ætla ég að segja að fólk eigi að klára matinn sinn og hugsa um fólkið í Eþíópíu sem fær ekkert að borða. Nautasteik með glasi af Suður-Afrísku rauðvíni kostar aðeins 300 kall! Það er ekkert verð.
Svo virðist sem babb sé komið í bátinn og fyrri ferðaáætlun sé úr sögunni, ástæðan hefur verið mikið í fréttum á Bretlandseyjum. Meira um það seinna.
Haukur er búinn að uploada myndir á netið en nennir ekki að setja þær á þessa síðu. Skoðið þær á myndasíðunni hans og njótið vel:
Smellið hér!
*Eþíópíubúar hófu að fasta daginn sem við komum til landsins, okkur til mikillar gleði. Á þessum tíma er bannað að borða dýr eða dýraafurðir. Þetta vissum við ekki á tímum bananagrjónagrautsins og eitruðum því fyrir strangtrúuðum munkunum með syndlega súkkulaði. Leiðsögumaður nokkur útskýrði þetta fyrir okkur og var alveg miður sín. Hann lofaði að segja munkunum frá þessu svo þeir gætu beðið um fyrirgefningu og sloppið við vist í helvíti. Það væri leiðinlegt að eftir að hafa fylgt reglunum alla ævi í munkaklaustri að finna sig við dyr vítis þegar þeir deyja, allt út af helvítis túristaeitrun. Fyrir heiðingjana, þá segjum við að grauturinn er þess virði að brenna að eilífu fyrir, hann er ljúffengur!
Vítisorsök synduga munksins / Bananasúkkulaðigrjónagrautur:
Slatti af hrísgrjónum
Nokkrir bananar
Egypst súkkulaðistykki
Einn skammtur af kaffidufti
Dash af sykri
Slurkur af ouzo
Hrísgrjónin soðin og öllu er blandað úti eftir hentisemi.
**Við gistum aðallega á börum sem eru með bakherbergi aðallega nýtt af innfæddum til að njóta ásta, oft gegn greiðslu. Þetta eru einfaldlega ódýrstu staðirnir. Mjög smekklegt oft að sjá smokkabréfin undir rúminu og sofna við frygðarhljóð Eþíópíubúa. Við reynum að fullvissa okkur um að skipt sé oft og títt um rúmföt, ekki mikil sannfæringartónn er í okkur.